Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1483  —  329. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna.

Frá 3. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra felur í sér löngu tímabæra endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Fjárhagslegur stuðningur við námsmenn og námslánakerfi er mikilvæg forsenda þess að tryggja jafnrétti til náms og jafnframt leið stjórnvalda til að sýna í verki stuðning sinn við háskólamenntun. Viðreisn tekur heilshugar undir það markmið að tryggja háskólastúdentum tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja. Því er fagnað að innleiða eigi slíkt stuðningskerfi.
    Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslensku samfélagi, og raunar heiminum öllum, vegna COVID-19-faraldursins hefði hins vegar verið rétt að horfa í þessu frumvarpi til framtíðar með því að senda þau pólitísku skilaboð að liður í því að bregðast við stöðu í efnahagsmálum verði að fjárfesta markvisst í háskólamenntun, rannsóknum og nýsköpun. Mikilvægur liður í því er að búa vel að háskólastúdentum, að tryggja þeim þær aðstæður og þau kjör að unnt sé að sinna háskólanámi án þess að þurfa samhliða að tryggja sér framfærslu með vinnu. Þannig er samfella í námi tryggð og námsframvindu stúdenta um leið hraðað. Mikilvægt er að því sé svarað á vettvangi þingsins afdráttarlaust að námsstyrkur og námslán dugi stúdentum til framfærslu, en frumvarpið er ekki afdráttarlaust um það.
    Í umsögnum við frumvarpið kom fram að grunnframfærsla hafi fram að þessu verið of lág til að námsmenn gætu framfleytt sér án þess að vera í vinnu samhliða námi. Gegn þeim umsögnum bendir meiri hluti nefndarinnar á að í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins sé kveðið á um að miða skuli við að framfærslulán nægi námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu. Þetta ákvæði er þó efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. gildandi laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Er því að mati 3. minni hluta ekki tryggt að frumvarpið nái fram umræddu markmiði um að tryggja framfærslu án mikillar vinnu með námi og stuðla því með fullnægjandi hætti að tímanlegri námsframvindu.
    Stór atriði sem snúa að framfærslu námsmanna er ekki að finna í frumvarpinu heldur verða þau útfærð í úthlutunarreglum. Það má telja eðlilegt en aðstæður nú eru kjörnar til þess að auka verulega þau framlög sem fara eiga í það að tryggja framfærslu stúdenta. Mikil áhersla er lögð á endurgreiðslu lána í frumvarpinu, sem er af hinu góða. Framtíðarsýn Viðreisnar um háskólamenntun byggist hins vegar öðru fremur á því hvernig jafnrétti til náms er tryggt og afkoma stúdenta sem nú eru í háskólanámi.
    Þá er þeirri spurningu ósvarað hvaða áhrif það hafi að tengja stuðningskerfið við lántöku og skapa þannig sterkan hvata fyrir ungt fólk að skuldsetja sig áður en starfsævin er hafin. Lýsir 3. minni hluti yfir efasemdum um að besta lausnin til að tryggja hagsmuni stúdenta sé að hvetja fólk til aukinnar skuldsetningar snemma á lífsleiðinni.
    Eftir stendur að þrátt fyrir jákvæðar breytingar sem í frumvarpinu felast þá tryggir það fyrst og fremst hagsmuni þeirra sem greiða þurfa af námslánum en gerir minna fyrir lánþega meðan á námi þeirra stendur.
    Með hliðsjón af framangreindum atriðum leggur 3. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem meiri hluti nefndarinnar leggur til en að endurskoðun verði hafin með það fyrir augum að tryggja betur framfærslu og hagsmuni námsfólks.

Alþingi, 19. maí 2020.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir.